Skynvilla

Flestir hafa upplifað skynvillu með einhverjum hætti. Ef þú horfir á myndina hér fyrir ofan og þér sýnist hjólin snúast og þú finnur jafnvel svimatilfinningu vegna þess, þá hefur þú upplifað skynvillu.

Skynvilla getur átt sér stað þegar skilaboð frá tveimur skynfærum stangast á, augun segja þér að þú sért á hreyfingu, en jafnvægisskynið segir þér að þú hreyfist ekki. Eða eins og í þessu tilfelli, sjónræn blekking veldur því að okkur sýnist hjólin snúast, þegar við vitum að þau snúast ekki. Hugurinn bregst við þessum ruglingi með málamiðlun og framkallar skynvillu - falska upplifun hreyfingar sem getur valdið svima.   

Lesblindir geta nýtt sér skynvillu í hugsanaferli sínu til að átta sig á hlutunum. Þegar lesblindir verða ringlaðir eða ráðvilltir, þá grípa þeir samstundis til skynvillu og "velta viðfangsefninu fyrir sér" í huganum í orðsins fyllstu merkingu. Þeir beita skynvillu til að sjá viðfangsefnið fyrir sér frá mismunandi sjónarhornum og þegar um þrívíða raunverulega hluti er að ræða, gefur þetta viðbótarupplýsingar sem oftast hjálpa til við að leysa úr ruglingnum.

Meðan á skynvillu stendur upplifir viðkomandi hugsun sína oft sem raunveruleika. Þetta ferli gerist venjulega svo snöggt að við verðum ekki vör við það, en það er almennt öflugasta aðferðin til að leysa úr ruglingi varðandi þrívíða hluti. Vegna þess hversu hraðvirk og árangursrík þessi úrvinnsluaðferð er, verður hún sjálfkrafa fyrsti valkostur þeirra sem fæðast með tilhneigingu til myndrænnar hugsunar. Þeir grípa ómeðvitað til skynvillu hvenær sem þeir þurfa að leysa úr einhverjum ruglingi. Þetta getur gerst án nokkurrar sýnilegrar ástæðu og skynvilluástand getur varað allt frá sekúndubroti upp í nokkrar klukkustundir í senn.

Dagdraumar eru gott dæmi um að beita skynvillu sér til skemmtunar. Hönnun og uppfinningar, eru góð dæmi um beitingu skynvillu á skapandi hátt í atvinnuskyni. Þeir sem hafa gott vald á skynvillu eru oft mjög fljótir að sjá út lausnir á flóknum vandamálum og eiga oft auðvelt með að halda yfirsýn yfir stór verkefni.   

 

Þessi mynd framkallar skynvillu hjá flestum sem horfa á hana. Þeim finnst sem hjólin snúist þótt þau séu í raun kyrr. Þessi meðfæddi hæfileiki til að framkalla skynvillu getur valdið lestrarörðugleikum hjá þeim sem hugsa mestmegnis í myndum.

 

Bókstafir geta valdið skynvillu hjá lesblindum.

Hvernig lítur A út þegar þú skoðar það frá öllum sjónarhornum?