Lesblindir snillingar eru fjölmargir í listum og vísindum. Listinn er langur yfir frumkvöðla og afburðafólk sem hafa átt við lesblindu að stríða. Snilligáfan kemur fram vegna lesblindunnar en ekki þrátt fyrir lesblinduna.
Ron Davis var eitt sinn í spjallþætti í sjónvarpi og í svari við spurningu um jákvæðar hliðar lesblindu taldi hann upp nöfn u.þ.b. tólf frægra manna með lesblindu. Þáttastjórnandinn hrópaði þá upp yfir sig: ,,Er ekki ótrúlegt að allt þetta fólk hefur snilligáfu þrátt fyrir að vera lesblint?"
Stjórnandinn náði ekki kjarna málsins. Snilligáfa þeirra kom ekki fram þrátt fyrir lesblindu þeirra heldur vegna hennar.
Ron Davis heldur því fram að án lesblindu væri ekki til snilligáfa. Hann er sannfærður um að hin öfluga myndræna hugsun sem liggur að baki lesblindunni sé lykillinn að framförum og nýsköpun. Þegar þessi langi listi lesblindra afburðamanna er skoðaður, er ekki hægt annað en að vera forvitinn um þessa staðhæfingu.
Hvað ef við erum í raun að missa okkar mesta mannauð í fangelsi og vímuefnaneyslu, þar sem hlutfall lesblindra er gífurlega hátt. Rannsóknir beggja vegna Atlantshafsins sýna á bilinu 50-90% lesblindu meðal vistmanna í fangelsum og ágiskanir frá aðilum innan íslenska áfengismeðferðargeirans hljóða upp á allt að 90% lesblindra. Hve lengi höfum við efni á að sóa þessum mannauði, þegar hægt er að fyrirbyggja vandamálið með einföldum og hagkvæmum hætti strax við 5 ára aldur með því að beita Davis námsaðferðunum?