Tvenns konar hugsun

Hvernig hugsum við?

Almennt er talið að fólk hugsi á tvo mismunandi vegu: Með orðrænu hugsanaferli og með myndrænu hugsanaferli. Í fyrra tilvikinu er hugsað með hljóðum orða en í því seinna er hugsað með huglægum myndum af hugtökum eða hugmyndum. Allir geta að einhverju marki notað báðar tegundir hugsunar, en hver einstaklingur hefur tilhneigingu til að sérhæfa sig í annarri hvorri. Tungumálið endurspeglar hugsunarferli okkar.Til að sjá hvernig mismunandi hugsun kemur við sögu í námsörðugleikum lesblindu þarf að skoða tungumál okkar. Líta má svo á að tungumál endurspegli hugsunarferli okkar. Annars væri tungumálanám einfaldlega alltof erfitt. 

Merking, hljómur, útlit

Lesmál er samsett af táknum. Tákn og orð eru samsett af þremur þáttum:    

1. Hljómi táknsins eða orðsins     

2. Merkingu táknsins eða orðsins     

3. Útliti táknsins eða orðsins

Orðræn hugsun

Orðræn hugsun er línuleg í tíma og fylgir uppbyggingu máls og felst í því að hugsa með hljóði tungumálsins. Þegar slík hugsun er notuð semur einstaklingur huglægar setningar með einu orði í einu. Orðræn hugsun er álíka hröð og hraði talmáls. Meðalhraði talmáls er um 150 orð á mínútu eða 2,5 orð á sekúndu. Vel þjálfaður útvarpsmaður, sem er vanur að lýsa í beinni útsendingu, eða uppboðshaldari getur náð 200 orðum á mínútu. Talmál með rafrænum búnaði getur haldist skiljanlegt í eyrum einbeitts hlustanda á hraða sem nær allt að 250 orðum á mínútu. Þetta er líklega hámarkshraði orðrænnar hugsunar.

Þegar notuð er orðræn hugsun er hugsað með hljóðum máls. Við erum í raun á innra eintali með huglægum staðhæfingum, spurningum og svörum. Sumir setja þetta hugsanaferli í orð með því að tala upphátt við sjálfa sig. Þetta er hægfara ferli en gerir þó merkingu setningar auðskiljanlega þótt merking sumra orðanna sé ekki að fullu ljós.

Að hlusta á setningu í huganum getur auðveldað skilning vegna þess að táknin (orð og stafir) koma oftast ekki fyrir í þannig röð að merking setningarinnar komi fram jafnt og þétt um leið og hlutar hennar koma í ljós. Það gerist frekar þannig að merkingin verður ekki ljós fyrr en setningin hefur öll verið lesin. Þannig er til að mynda ekki ljóst hvort setning er staðhæfing eða spurning fyrr en hún er öll komin fram og lýkur með punkti eða spurningarmerki.

Myndræn hugsun

myndhugsun - orðhugsun

 

Myndræn hugsun er eins konar þróunarferli. Hugmyndin vex eftir því sem hugsanaferlið bætir við fleiri þáttum. Myndræn hugsun er mun hraðari en orðræn hugsun, jafnvel nokkur þúsund sinnum  hraðari. Reyndar er erfitt að skilja myndræna hugsunarferlið því að það gerist svo hratt að maður verður ekki var við það þegar það gerist. Oftast er myndræn hugusn ómeðvituð.

Myndræn hugsun notar merkingu málsins með því að framkalla myndir í huganum af hugtökum þess og hugmyndum. Myndirnar eru ekki eingöngu sjónrænar. Þær eru líkari kvikmyndum í þrívídd, og skynjast af mörgum skynfærum samtímis.

Með myndhugsun er okkur auðvelt að nota orðið fíll svo framarlega sem við vitum hvernig fíll lítur út. Dýrið sem við köllum fíl er í raun og veru merking orðsins fíll. Þegar við sjáum fyrir okkur þessa mynd, sjáum við fyrir okkur merkingu orðsins.

Myndræn hugsun - einkenni lesblindu

Myndrænni hugsun fylgir vandi þar sem sum orð falla betur að myndrænni hugsun en önnur. Þótt við vitum hvernig orðið um lítur út, þá gefur sú mynd okkur ekki neina vísbendingu um hvað orðið um þýðir. Þegar þú sérð stafina F-Y-R-I-R í orðinu fyrir, þá sérðu ekki fyrir þér merkingu orðsins. Eina myndin sem þér stendur til boða er útlit stafanna sjálfra.

Þegar við lesum setningu sjáum við fyrir okkur myndir í huganum. Það bætist stöðugt við þessa mynd eftir því sem lengra kemur í setningunni. Uppbyggingin myndarinnar sem endurspeglar skilninginn á merkingu setningarinnar er trufluð í hvert sinn sem “myndlaust” orð er lesið. Það skapar eyðu í heildarmyndinni. Þetta vandamál vex í hvert sinn sem við reynum að lesa myndlaust orð. Í hvert sinn sem hugmyndaferlið er rofið með þessum hætti er lesandinn sleginn út af laginu og verður ringlaður. Ef haldið er áfram að lesa verður lesandinn ringlaðri og ringlaðri, að lokum fer hann að upplifa skynvillur.

myndlaus_ord2_759427803

Í kassanum til hægri sérðu orðin sem eftir standa þegar myndlausu orðin hafa verið fjarlægð.

Hafa ber í huga að lesblindir hafa lítið eða ekkert innra eintal og heyra því ekki hvað þeir eru að lesa nema þeir lesi upphátt. Þess í stað eru þeir að skapa mynd í huganum með því að bæta merkingu hvers nýs orðs við - eða mynd af merkingu þess - eftir því sem það kemur fyrir.