Reynslusögur

Umsögn foreldra

„Hún les sér nú til skemmtunar nánast á hverju kvöldi og á erfitt með að slíta sig frá lestrinum til að fara að sofa." Móðir Halldóru, 13 ára

„Síðan þá hefur honum gengið stöðugt betur í skólanum."
Ánægð móðir 17 ára drengs

„Lestur er miklu auðveldari, mér gengur betur í stafsetningu og íslensku yfir höfuð."
Tinna, 13 ára

„Hún les sér til skemmtunar núna, sem hún aldrei gerði áður. Stafsetningin hefur líka stórbatnað."
Sissa, móðir Tinnu

„Skriftin hefur batnað og hann sest sjálfur niður við heimanámið strax þegar hann kemur heim."
Ánægð móðir 11 ára drengs

Davis leiðréttingin gefur lesblindum nýtt líf. Sjálfsvirðing tekur stakkaskiptum, námsárangur batnar og skólagangan betri.

Meðaleinkun úr fimm í átta

Ári eftir Davis leiðréttinguna er meðaleinkunn 17 ára drengs komin í átta eftir að hafa árum saman verið í kringum fimm að jafnaði. Þetta er þrátt fyrir að hann hafi alla tíð lagt mjög hart að sér og fengið aðstoð stuðningskennara allt að 3 klst á dag í mörg ár. Foreldrarnir telja að stuðningskennslan hafi hjálpað mikið, en strax eftir Davis leiðréttinguna varð námið miklu auðveldara og árangurinn fór að skila sér í hærri einkunnum. Drengurinn þurfti minni stuðningskennslu og sjálfsvirðingin tók miklum stakkaskiptum.

Lestur verður skemmtilegur

Báðir foreldrar 13 ára stúlku sögðu að fyrsta og mest áberandi breytingin hefði verið stórt stökk upp á við í sjálfsvirðingu. Nokkrum vikum síðar þegar móðirin var spurð hvort hún sæi einhverja breytingu, nefndi hún að í sumarfríinu hefði stúlkan lesið 3 bækur í rykk og meira að segja hefði hún lesið þær tvisvar. Það samsvarar 6 bókum á tíma sem hún áður hefði átt í erfiðleikum með að lesa hálfa bók. Sömuleiðis les hún nú á hverju kvöldi og þrátt fyrir að hún eigi að vera búin að slökkva ljósið og fara að sofa, finnst móðurinni erfitt að fylgja þeirri reglu eftir þegar ástæðan fyrir vökunni er þessi nýfundna ánægja við lestur.

Stökkbreyting í sjálfsvirðingu

(14 ára unglingur)
Mér finnst mesti munurinn liggja í því að áður en ég fór í greiningu og leiðréttingu, var oft erfitt að fylgjast með í skólanum og lestrarkunnátta var næstum engin, reikningur var mjög erfiður, stafsetningu og skrift var næstum ómögulegt að ná tökum á, nema þá lítið í einu og oftar en ekki mundi ég stafina ekki nema stutta stund. Erfitt var að muna t.d. símanúmer og oft nöfn á fólki. Þegar ég horfði á myndir var mjög erfitt að ná samhengi, því ég þurfti að reiða mig á það sem ég kunni í ensku, og ef eitthvað var sagt sem ég skildi ekki, missti ég kannski úr samhengi að hluta.

Sjálfstraust var lítið og var það þess valdandi að ég átti ekki marga vini, heldur hélt ég mig frekar við einn í einu að mestu.
Eftir greiningu og leiðréttingu er sjálfstraustið það fyrsta sem ég finn að hefur aukist og einnig er mikið auðveldara að lesa og fylgjast með því sem fer fram í kringum mig. Ég á miklu auðveldara með að umgangast jafnaldra mína og fólk á öllum aldri, skelli mér orðið á skólaböll og er mikið sjálfstæðari í öllu sem ég geri. Einnig á ég mun auðveldara með að tjá mig um ákvarðanir mínar og skoðanir.

Ég myndi ráðleggja öllum sem eiga við lesblindu eða annað að stríða, þar sem Davis kerfið getur komið að notum, að skella sér í greiningu og leiðréttingu, því það opnast fyrir manni alveg nýr heimur og allt í lífinu verður mun auðveldara.

Móðir hans:

Mesti munurinn sem ég finn á syni mínum fyrir og eftir greiningu og leiðréttingu felst í auknu sjálfstrausti hans á öllum stigum, ekki bara gagnvart lærdómnum og skólanum í heild, heldur öllu þessu daglega lífi utan skólans. Áður var hann oftast heima, að mestu einn án vina á meðan systkyni hans voru úti með vinum sínum eða heima hjá þeim.

Skapið í honum hefur breyst mjög mikið, og er það algjörlega auknu sjálfstrausti hans að þakka, því með því hef ég séð hann blómstra og vellíðan hans aukast að mjög mörgu leiti. Ég sé mikinn mun á því t.d. við lestur, hvort hann hefur sett sig á punktinn (beiti Davis aðferðunum) eða ekki.

Upplifunin við það að fá þessa aðferð og breytinguna sem hún veitir, er einna líkust því að fá allt í einu lyf við einhverju sem maður hélt að ekki væri hægt að lækna. Í það heila hefur orðið jákvæð breyting innan veggja heimilisins sem snertir alla í fjölskyldunni, og einnig erum við að heyra frá fólki sem við hittum af og til hvað viðkomandi taka eftir muninum á honum. Mæli hiklaust með Davis kerfinu eftir þessa reynslu.

 

 

,,Mér finnst svo gaman að lesa mamma."

Dóttir mín sem er 10 ára var greind með leshömlun skv. Aston Index prófi þegar hún var 7 ára. Skólinn veitti töluverða aðstoð en leshömlunin háði henni samt meir og meir eftir því sem tíminn leið, hún las hægt, átti erfitt með að muna það sem hún las, orðskilningur var lélegur og eins var hún í erfiðleikum með stærðfræðina. Heimanámið varð því oft að hálfgerðri martröð eftir langan dag. Ég var farin að kvíða verulega þessum vetri, en í haust byrðjaði hún í 5 bekk með tilheyrandi lesfögum og þyngingu náms. Ég dreif mig því á fyrirlestur sem Ron Davis hélt í Háskólabíói í ágúst sl. og keypti þar bókina Náðargáfan lesblinda, í von um að fá einhver góð ráð.

Bókin kom mér á óvart, þar var t.d. fjölmörgum einkennum lesblindu lýst, einkenni sem ég hafði aldrei sett í samhengi við leshömlun Önnu, s.s. ákveðin klaufska þótt fínhreyfingar væru góðar, höfuðverkir, svefntruflanir, sterk athyglisgáfa og þroskuð rýmisskynjun. Margt hafði verið reynt við höfuðverkjunum, hún var búin að fara í sneiðmyndatöku, prufa gleraugu, hnykkingar og heilun, allt án árangurs þannig að óneitanlega læddist sá grunur að manni að allar heimsóknirnar til hjúkrunarfræðingsins í skólanum væru yfirskyn til að sleppa úr tíma. Eftir lestur bókarinnar hrigndi ég í Judith hjá Lesblind.com og fékk fljótlega tíma fyrir stelpuna í greiningu og rúmum mánuði seinna, viku leiðréttingarmeðferð. Kennarinn var amerískur en kona sem er í leiðbeinendanámi bauðst til að vera túlkur svo tungumálið varð ekki nein hindrun.

Nú tveim mánuðum seinna sagði dóttir mín við mig: ,,Mér finnst svo gaman að lesa mamma", þá var hún búin að lesa heila 3 kafla í sögubók sem henni fannst spennandi. Hún er líka farin að lesa Galdrastelpuna og aðrar myndasögur, sem hún áður bara skoðaði. Hún er í betra jafnvægi en áður, sefur betur, gengur betur með heimanámið og í prófum. Auðvitað koma enn stundir þar sem henni finnst hún ekkert skilja, er óskaplega ringluð, og æðir inn í herbergið sitt, skellir hurðum eða skælir svolítið, en í stað þess að gefast upp þá stillir hún hugann, kemur fram og heldur áfram þar sem frá var horfið. Það er reginmunur frá því sem áður var.

Hluti leiðréttingarmeðferðarinnar er að halda áfram ákveðnum æfingum heima. Hún gerir það oftast með glöðu gleði þar sem hún finnur sjálf að æfingarnar gera henni gott. Hún notar einnig fleiri aðferðir sem henni voru kenndar, t.d. viðbrögð við spennuhöfuðverk. Um daginn var hún lasin og kvartaði undan höfuðverk, en þegar ég benti henni á að nota aðferðina sína þá sagði hún að þetta væri ekki "svoleiðis höfuðverkur", hún væri búin að prufa og það gengi ekki, hún gerir s.s. greinarmun ,,venjulegum" höfuðverk og þeim sem hún fær við lestraráreynslu. Enn er langt í land en framfarirnar undanfarið hafa verið miklar og það þakka ég fyrst og fremst Davis-leiðréttingunni sem hún fékk hjá Lesblind.com núna í haust.
Skrifað af móður í byrjun des. 2003

Móðir lesblinds drengs

Lesblinda er veruleg fötlun í skóla og öllu heimanámi sem krefst lestrar og skriftar. Lesblindir fá flestir veruleg líkamleg einkenni s.s. svima, ógleði og höfuðverk. Einnig er hreyfiþroskinn oft lélegur og þeir þjást gjarnan af jafnvægisleysi. Svo ekki sé talað um andlega vanlíðan þeirra. Þegar sonur minn byrjaði í 1. bekk tók kennarinn fljótlega eftir að hann varð oft órólegur í tímum, hann þurfti ítrekað að standa upp og hreyfa sig, fara á WC, fá sér að drekka o.s.frv.

Í 2. bekk ágerðist vandamálið og hann var líka oft annars hugar og greinilegt var að hann tók ekki eðlilegum framförum miðað við ástundun. Meðalárangur sýndi hins vegar ekki mikil frávik þar sem flest börnin í bekknum voru illa læs. Heimanámið var hreinasta martröð sem tók margar klukkustundir með sífelldum kvörtunum um hina ýmsu vanlíðan.

Þar sem þekking mín á lesblindu var engin, þá skrifaði ég þetta á leti og áhugaleysi. Drengurinn var sendur í tíma hjá talfræðing, sérkennslu og loks álit skólasálfræðings fengið sem greindi hann með athyglisbrest. Ekki var þó talið að hann þyrfti lyfjagjöf að svo stöddu. Sonur minn var svo heppinn að kennarinn hans var í námi og einn daginn fór hún yfir ítarlegt verkefni um lesblindu og sá að það var lýsing á hans einkennum. Í kjölfarið benti hún mér á að lesa nýútkomna bók um Daviskerfið "Náðargáfan lesblinda" og sá ég þá svart á hvítu að þetta var það sem var að.

Í framhaldi af því setti ég mig í samband við Lesblind.Com, Við vorum svo heppin að um það leiti voru að útskrifast fyrstu Davis leiðbeinendurnir og einn þeirra tók hann að sér. Leiðréttingin var eins og kraftaverk. Eftir leiðréttinguna settist sonur minn í 3. bekk í nýjum skóla. Ég setti að sjálfsögðu kennarana inn í málið og kynnti þetta fyrir þeim og þau einkenni sem fylgja lesblindum.

Breytingin var ótrúleg. Í fyrsta lagi þá leið honum miklu betur bæði andlega og líkamlega. Einkennin voru í lágmarki og örlaði bara á þeim þegar hann gleymdi skynstillingunni og þá minnti kennarinn hann á. Hann náði góðum árangri í flestum fögum og gat í fyrsta sinn lesið texta og skilið hann. Áður skildi hann ekki það litla sem hann gat lesið.

Auðvitað er þetta vinna en hún skilar árangri þar sem áður voru erfiðleikar og vonleysi og ég þakka fyrir að sonur minn fékk þetta tækifæti og þarf ekki að þola vanlíðan og niðurlægingu alla sína skólagöngu, því hann hefði aldrei átt möguleika á að verða læs án leiðréttingarinnar.

Hanna Margrét Geirsdóttir